top of page

Alræmdar eyðsluklær

Jón og Gunna eru alræmdar eyðsluklær. Um síðustu mánaðarmót lentu þau í þó nokkrum vandræðum. Ráðstöfunartekjur þeirra hjóna dugðu ekki til að standa undir rekstri heimilisins. Öðrum orðum, þau náðu ekki endum saman. Við eldhúsborðið ákváðu þau að draga saman seglin og koma fjárhag heimilisins í betra horf. Næsta mánuðinn yrði enginn skyndibiti, sjónvarpsáskriftum sagt upp og öllum útgjöldum stillt í hóf. Til að tryggja framgang aðhaldsins upplýstu þau fjölskyldu og vini um áformin. Nú skyldi sparað!

 

Snemma í mánuðinum bárust hins vegar þau óvæntu tíðindi að Gunna myndi hljóta rausnarlega kauphækkun. Svo rausnarlega að allar fyrri yfirlýsingar um aðhald og sparnað urðu að engu. Þau hjón keyptu ferð fyrir fjölskylduna til Tenerife, keyptu stærra sjónvarp og nýja leikjatölvu, pöntuðu skyndibita oftar en áður og bættu við sig fleiri áskriftum.

 

Þessi mánaðarmót munu endar ná saman hjá Jóni og Gunnu. Þau vita hins vegar að það er ekki vegna þess að digurbarkalegar yfirlýsingar þeirra um sparnað hafi náð fram að ganga. Þvert á móti eyddu þau meira fé í óþarfa en nokkru sinni fyrr. Eina ástæða þess að dæmið gengur upp, er óvæntur tekjuauki heimilisins.


Hagrætt með vösum skattgreiðenda

Fyrir rúmu ári bárust þau válegu tíðindi að halli af restri borgarinnar vegna ársins 2022 myndi nema 15,6 milljörðum. Í kjölfarið birtust nokkuð digurbarkalegar yfirlýsingar oddvita Framsóknar í borginni, um að framundan væru einhverjar mestu hagræðingaaðgerðir frá hruni.

 

Nú, ári síðar, virðist rekstrarhalli borgarsjóðs hafa dregist saman. Hann fer úr rúmum 15 milljörðum niður í tæpa fimm milljarða. Er það vegna yfirlýstra hagræðingaraðgerða, eða af öðrum ástæðum?

 

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að yfirlýst aðhald meirihlutans skilaði engum árangri. Útgjöld hafa blásið út langt umfram verðlagsþróun og kjarasamningsbundnar launahækkanir. Samhliða hefur starfsfólki ekki fækkað á neinu sviði, þrátt fyrir boðaða fækkun stöðugilda.

 

Eina ástæða þess að rekstrarhallinn dregst saman er gríðarlegur tekjuvöxtur borgarinnar. Í ár hafa skatttekjur, jöfnunarsjóðstekjur og arðgreiðslur til borgarinnar vaxið um tæplega 21 milljarð milli ára. Samhliða hefur launakostnaður og rekstrarkostnaður þyngst sem nemur 11 milljörðum. Margumtalaður 10 milljarða viðsnúningur í rekstri borgarinnar skýrist því ekki af hagræðingum – hann er sóttur beint í vasa skattgreiðenda.


Varhugaverð hjónabönd

Ólíkt Jóni og Gunnu, fullyrðir meirihluti borgarstjórnar að viðsnúningur í rekstri borgarinnar skýrist af hagræðingum og aðhaldi. Það er þó hverjum sæmilega talnaglöggum einstaklingi ljóst að borg sem eykur útgjöld í rekstri um 11 milljarða milli ára hefur ekki hagrætt. Viðsnúningurinn skýrist af óvæntum tekjuauka.

 

Hjónaband Samfylkingar og Framsóknar byggir á veikum undirstöðum. Framtíðaráform og gildi hjónaefnanna eru svo eðlisólík að vart getur ráðahagurinn orðið farsæll og gæfuríkur. Sambandið á raunar ýmislegt sameiginlegt með hjónabandi Jóns og Gunnu.  Í báðum tilfellum stýrast fjárhagslegar ákvarðanir sjaldan af skynsemi og áhugi á ábyrgri ráðstöfun fjármuna er takmarkaður – enda samanstanda bæði hjónabönd af alræmdum eyðsluklóm.




bottom of page