top of page

Bráðræði og Ráðleysa

Í kringum aldamótin 1800 var sagt að Reykjavík byrjaði í Bráðræði og endaði í Ráðleysu. Var þá vísað til ystu húsa bæjarins, sem hétu þessum nöfnum og stóðu sitt í hvorum enda bæjarins. Nú, ríflega tveimur öldum síðar, mætti enn taka í sama streng. Verkefni borgarinnar byrja gjarnan af bráðræði – og enda gjarnan í ráðleysu.


Þeir tekjustofnar Reykjavíkur sem lög gera ráð fyrir eru nær fullnýttir. Borgin innheimtir hæsta lögleyfða útsvar, fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru í hámarki og krónutala fasteignagjalda fer hækkandi árlega, samhliða síhækkandi fasteignamati. Tekjutuskan er undin til fulls, samhliða stóraukinni skuldsetningu.


Rekstrarkostnaður borgarinnar hefur aukist um 16% á fyrstu tveimur árum þessa kjörtímabils. Skuldir halda áfram að aukast og verða 64 milljörðum hærri árið 2022 en lagt var upp með fyrir kosningar. Kostnaður við framkvæmdir fer reglulega framúr áætlunum.


Meirihluti borgarstjórnar er stórhuga hvað varðar framkvæmdir og fjárfestingar. Ársreikningur Reykjavíkurborgar sýnir þó glöggt að enginn afgangur er af venjubundnum rekstri sem staðið getur undir slíkum fjárfestingum – ekki án frekari eignasölu eða stórkostlegrar skuldsetningar. Verulega skortir á ábyrgð, ráðdeild og aga í rekstri borgarinnar.


Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar lagði undirrituð til útsvarslækkun í Reykjavík. Hana mætti hæglega fjármagna með arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Eins lagði annar fulltrúi Sjálfstæðisflokks til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Báðum tillögum var einróma hafnað af meirihluta borgarstjórnar. Enginn vilji til skattalækkana í Reykjavík.


Borgarkerfið verður að undirgangast tiltekt. Við þurfum minni yfirbyggingu og skipulega niðurgreiðslu skulda. Við þurfum öflugri grunnþjónustu og svigrúm til lækkunar skatta á fólk og fyrirtæki. Við verðum að sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjármuni borgarbúa. Þá fyrst mun draga úr bráðræði og ráðleysu innan borgarmarkanna.


Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




bottom of page