Geðheilbrigði er grunnstoð í heilbrigðu samfélagi. Það er órjúfanlegur hluti af almennri vellíðan og forsenda virkrar samfélagsþátttöku. Það skiptir okkur sköpum að vel sé haldið á málaflokknum. Samfélagsvitund um geðheilbrigði hefur stóraukist en betur má ef duga skal.
Rannsóknir sýna að um 20% barna og unglinga fást við vanlíðan eða geðraskanir af einhverju tagi. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn og unglingar hérlendis nú 80.383 talsins. Sé tekið mið af niðurstöðum rannsókna má því ætla að um 16.077 börn og ungmenni glími nú við vanlíðan eða geðraskanir. Fái þau ekki viðeigandi aðstoð getur vandinn versnað verulega og afleiðingarnar orðið alvarlegri.
Algengast er að geðsjúkdómar komi fram hjá einstaklingum á aldrinum 18-25 ára. Helsta dánarorsök íslenskra karlmanna í þessum aldurshópi er sjálfsvíg. Með snemmtækri íhlutun og stórbættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu mætti draga úr þessum átakanlega vanda. Lykilatriði er að byrja nægilega snemma.
Það skortir samfellu í geðheilbrigðisþjónustu við börn. Biðlistar eru langir og einstaklingar falla gjarnan milli skips og bryggju innan kerfisins. Stór hluti barna fær seint eða aldrei viðeigandi meðferð. Það er mikilvægt að komast fyrir vandann nægilega snemma. Auknar forvarnir og auðveldur aðgangur að sálfræðiþjónustu strax í grunnskóla gæti skipt sköpum.
Við verðum að bæta samstarf ríkis og sveitarfélaga hvað málaflokkinn varðar. Móta þarf heildstæða stefnu um geðheilbrigði og eyrnamerkja málaflokknum aukið fé. Styðja þarf frjáls félagasamtök sem vinna að geðheilbrigðismálum. Tryggja þarf skilyrðislausa mannvirðingu í allri geðheilbrigðisþjónustu, með áherslu á persónulega nálgun og fjölbreyttar leiðir til bata.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill tryggja börnum og ungmennum gjaldfrjálsa og aðgengilega sálfræðiþjónustu strax í grunnskóla. Það er þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting í geðheilbrigði samfélags. Aðgerðarleysi gagnvart málaflokknum mun alltaf fela í sér aukinn samfélagslegan kostnað – fjárhagslegan og tilfinningalegan. Með snemmtækri íhlutun má draga verulega úr vanlíðan og áhrifum geðraskana. Með forvörnum má fyrirbyggja frekari vanda.
Comments