top of page

Húsnæðismarkaður sem virkar

Húsnæðisskorturinn í Reykjavík hefur verið viðvarandi og vaxandi. Skorturinn endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli er í sögulegu lágmarki og enn eitt metið féll á höfuðborgarsvæðinu í nóvember þegar nær helmingur allra seldra íbúða seldist yfir ásettu verði.

Samtök iðnaðarins birtu í október síðastliðnum íbúðatalningu sem sýndi tæplega 3.400 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Það eru 18% færri íbúðir en voru í byggingu ári fyrr. Mesti samdrátturinn reyndist í Reykjavík, þar sem íbúðir í byggingu voru 24% færri en árið áður. Höfuðborgin svarar ekki eftirspurn og mætir ekki fyrirliggjandi húsnæðisþörf.

Höfuðborgin mætir ekki þörfinni

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað 27 þúsund íbúða þörf á landsvísu til ársins 2030. Fjölgunin verði meiri á fyrri hluta tímabilsins, og því þurfi uppbyggingu 3.500 íbúða árlega næstu árin. Þörfin verði mest á höfuðborgarsvæðinu en þar sé jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf vegna takmarkaðrar uppbyggingar, aukinnar fólksfjölgunar og hækkandi lífaldurs. Haldi bilið milli fjölda byggðra íbúða og fólksfjölgunar að breikka má vænta þess að fasteignaverð haldi áfram að hækka - og fasteignamarkaður reynast fólki enn torveldari.

Þeir flokkar sem nú fara með áhrif í borginni hafa sofið á verðinum. Borgarstjóri hefur sofið á verðinum. Loforð um markvissar aðgerðir í húsnæðismálum og hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis voru að engu höfð. Áform um einfaldari skipulags- og byggingarferla komust aldrei til framkvæmda. Kosningar eftir kosningar lofar borgarstjóri stórsókn í húsnæðisuppbygginu. Árangurinn hvergi sýnilegur, nema í hönnunarteikningum sem aldrei komust til framkvæmda.

Fjölbreyttir valkostir

Borgin þarf að leggja áherslu á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Ekki síst fullorðið fólk á besta aldri. Tryggja þarf nægt lóðaframboð undir umfangsmikla uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir eldri kynslóðir, þar sem miðlæg þjónusta og afþreyting er fyrir hendi. Gera þarf fólki kleift að búa heima svo lengi sem það kýs. Forsenda þess er öflug og samræmd heimaþjónustu og heimahjúkrun. Samhliða þarf að gera stórátak í byggingu hjúkrunarheimila í samstarfi við ríkið.

Jafnframt þarf að tryggja úrval hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk og fjölbreytta búsetukosti fyrir fjölskyldur um alla borg. Allir samfélagshópar verða að geta fundið sinn stað í borginni – á öllum æviskeiðum.

Lægri álögur og aukinn sveigjanleiki

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að mæta húsnæðisþörfinni – bæði þeirri uppsöfnuðu og þörfinni til framtíðar. Það verður einungis gert í samstarfi við einkaframtakið í borginni sem sannarlega skortir ekki framkvæmdavilja. Ef við viljum að Reykjavík verði eftirsóknarverður búsetukostur til framtíðar, þarf að tryggja úrval húsnæðiskosta í lifandi borgarumhverfi sem hæfir ölllum kynslóðum. Við viljum hefja skipulag íbúðauppbyggingar í Örfirisey og að Keldum, samhliða aukinni þéttingu innan hverfa sem hafa til þess svigrúm. Mæta þarf húsnæðisþörfinni með kröftugri framfylgd húsnæðisáætlana samhliða skipulagi nýrra svæða. Tryggja þarf stafrænar lausnir, nýsköpun í stjórnsýslu skipulags- og byggingamála, lægri álögur og sveigjanlegra regluverk fyrir byggingaiðnað í Reykjavík. Einungis þannig náum við árangri.






bottom of page