top of page

Leikskólaþjónusta sem virkar

Leikskólaþjónusta sem virkar

Leikskólavandinn er þekkt stærð í Reykjavík. Árið 2017 voru rúm 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Fjórum árum síðar er fjöldi barna á biðlistum enn um 800. Yfir 16 ára tímabil hefur Samfylking lofað öllum börnum leikskólavist við 12-18 mánaða aldur. Meðalaldur barna við innritun á borgarrekna leikskóla er hins vegar töluvert hærri. Illa gengur að stytta biðlista, illa gengur að manna leikskóla og illa gengur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Komið að borginni að brúa bilið

Fjölskyldur eru í vanda – en atvinnurekendur verða ekki síður fyrir áhrifum af úrræðaleysinu. Mörgum reynist erfitt að endurheimta starfsfólk að loknu fæðingarorlofi. Foreldrar eru gjarnan lengur frá vinnu en vilji og efni standa til – vegna skorts á leikskólavist og daggæslu í kjölfar barneigna. Ríkisstjórnin hefur tryggt lengra fæðingarorlof, nágrannasveitarfélögin bjóða yngri börnum leikskólavist – nú er komið að borginni að brúa bilið.

Margvíslegar lausnir

Vandann má nálgast með margvíslegum lausnum. Bilið mætti brúa með eflingu dagforeldrastéttar – og fjölgun leikskólarýma – en það mætti jafnframt brúa með nýjum leiðum sem þekkjast víða erlendis.

Ég vil kanna möguleikann á stuðningi borgar við stærri vinnustaði að opna daggæslu fyrir börn starfsmanna. Borgin sýndi þannig frumkvæði að samtali við fjölskyldur og atvinnulíf um nýjar lausnir á viðvarandi vanda. Aðgerðin myndi gagnast fjölskyldum jafnt sem atvinnurekendum. Foreldrar ættu auðveldara með að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna – og atvinnurekendur gætu endurheimt starfsfólk fyrr úr orlofi, standi vilji til þess.

Samhliða mætti hækka niðurgreiðslur til dagforeldra með börnum 12 mánaða og eldri, svo greitt sé sama gjald fyrir barn á leikskóla og barn hjá dagforeldri. Þannig mætti mæta þeim fjölskyldum sem ekki hafa fengið leikskólapláss fyrir börnin sín við 12 mánaða aldur og tryggja aukið valfrelsi foreldra um ólíka kosti.

Mikilvægt jafnréttismál

Borgin þarf að bjóða trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Leysa þarf mannekluvanda leikskólanna og draga úr brottfalli dagforeldra. Jafnframt þarf að styðja við sjálfstætt starfandi leikskóla sem svarað hafa eftirspurn sem borgin hefur ekki getað mætt. Tryggja þarf framsækna leikskólaþjónustu í borginni, öfluga daggæslu og úrval valkosta - það er mikilvægt jafnréttismál.


Hildur Björnsdóttir




bottom of page