top of page

Minna fyrir meira

Nýtt flokkunarkerfi sorphirðu var innleitt á síðastliðnu ári og hefur sorphirða í Reykjavík gengið brösuglega í kjölfarið. Sorphirða hefur víða verið fleiri vikum á eftir áætlun og losun grenndargáma verið illa sinnt. 


Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag lagði Sjálfstæðisflokkur til að ráðist yrði í rekstrarútboð sorphirðu í Reykjavík. Það er ástæðulaust fyrir hið opinbera að standa í rekstri sem einkaaðilar geta sinnt bæði betur og hagkvæmar – líkt og dæmin hafa sýnt allt um kring. 


Sorphirða er boðin út í öllum nágrannasveitarfélögum og hefur innleiðing nýs kerfis gengið töluvert betur á öllu höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Jafnframt hefur komið í ljós að gjaldskrár sorphirðu eru töluvert hagstæðari fyrir íbúa í nágrannasveitarfélögum heldur en í Reykjavík þar sem sorphirðugjöld eru langhæst.

 

Þetta birtist glöggt af samanburði milli sveitarfélaga. Þannig er gjald fyrir þrjár 240 lítra flokkunartunnur auk gjalds fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva samtals 90.500 kr. fyrir sérbýli í Reykjavík. Gjald fyrir sömu þjónustu eru 62.500 kr. Í Kópavogi, 68.798 í Hafnarfirði og 72.190 í Garðabæ. Gjald fyrir sorphirðu við sérbýli er því um 45% hærra í Reykjavík en Kópavogi. Sé litið til fjölbýla er gjaldskrá fyrir hverja losun um 32% hærri í Reykjavík en Kópavogi.


Þjónustan er ekki aðeins dýrari í Reykjavík, hún er jafnframt óáreiðanlegri og stopulli. Fyrir ofanritað gjald fá íbúar Kópavogsbæjar sorphirðu á tveggja vikna fresti en íbúar Reykjavíkurborgar á aðeins þriggja vikna fresti. Undanliðna mánuði hafa borgarbúar raunar þurft að bíða í uppundir sex vikur eftir sjálfsagðri tunnulosun við heimili sín.


Áreiðanleg sorphirða er grundvallarþjónusta við heimilin í borginni. Borgarbúar eiga ekki annarra kosta völ en að greiða uppgefin sorphirðugjöld, jafnvel þó áætlanir um sorphirðu standist ekki. Meirihlutaflokkarnir gátu ekki fallist á tillögu Sjálfstæðisflokks um afslætti af sorphirðugjöldum sem nema myndu þjónustufallinu síðastliðna mánuði. Þau gátu ekki heldur samþykkt tillögu okkar um rekstrarútboð sorphirðu, en hafa þó samþykkt að rýna málið nánar á vettvangi borgarráðs. 


Reykjavíkurborg stenst illa samanburð við nágrannasveitarfélög hvað varðar sorphirðu, leikskólaþjónustu, snjómokstur og áfram mætti telja. Þjónustukannanir sýna ítrekað að borgarbúar eru óánægðari með þjónustu síns sveitarfélags, en íbúar nágrannasveitarfélaga.

Fólk sættir sig ekki við þann veruleika að fá sífellt minna fyrir meira. Verstu þjónustuna fyrir hæstu skattana. Ekki síst þegar tækifæri til bæði hagræðinga og þjónustuúrbóta eru alltumlykjandi - þegar með smávægilegum vilja og útsjónarsemi mætti vel tryggja fólki, meira fyrir minna.      





 

 

bottom of page