top of page

Perla fyrir svín

Síðari umræða fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fór fram í borgarstjórn á þriðjudag. Fjallað var um hallarekstur borgarsjóðs sem nema mun 4,8 milljörðum króna árið 2023. Það er hins vegar bjart yfir meirihlutanum en þau boða jákvæða rekstrarniðurstöðu á næsta ári – þó aðeins takist þeim að selja Perluna í Öskjuhlíð.

 

Hvað myndir þú gera við peninginn?

Rekstrarvandi borgarinnar spannar langt skeið. Ef sérstaklega er skoðað tímabilið 2014 til 2023, má rýna hvernig reksturinn hefur þróast í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar.

 

Í ljós kemur að frá því að borgarstjóri tók við árið 2014 hefur skattbyrði á hvern starfandi borgarbúa aukist um 22% á föstu verðlagi, og skuldir á hvern borgarbúa aukist um 91% á föstu verðlagi. Þannig hefur skattbyrði á heimili með meðaltekjur aukist um 627 þúsund krónur yfir tímabilið. Hvað gæti þitt heimili gert fyrir þessa fjármuni?

 

Starfsmönnum borgarinnar hefur jafnframt fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun. Tímabilið 2017 til 2022 fjölgaði starfsmönnum um 25%, eða 2.357, en íbúum fjölgaði aðeins um 10%. Báknið hefur vaxið langt umfram tilefni.

 

Ráðningabann og stjórnkerfisúttekt

Sjálfstæðisflokkur telur löngu tímabært að ráðast í aðgerðir sem hreyfa nálina í rekstri borgarinnar. Á síðastliðnum borgarstjórnarfundi lagði flokkurinn því fram 18 breytingatillögur sem sneru aðallega að hagræðingu í rekstrinum, eignasölu og auknum rekstrarútboðum. Miðuðu tillögurnar að því að borgin næði sjálfbærni í rekstri á næsta ári, óháð því hvort Perlan verði seld.

 

Meðal tillagna Sjálfstæðisflokks voru ráðningabann á miðlæga stjórnsýslu og stjórnkerfisúttekt á borgarkerfinu. Lögbundin verkefni yrðu sérstaklega skilgreind og forgangsraðað í þeirra þágu. Jafnframt að dregið yrði úr fjárfestingu í stafrænni umbreytingu og margvíslegri uppbyggingu í miðborginni.

 

Aðeins 800 íbúðir

Sjálfstæðismenn lögðu jafnframt til tekjuaukandi aðgerðir á borð við eignasölu og aukna lóðasölu undir bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Tilefnið er ærið enda áætlar borgin að aðeins verði byggðar 800 íbúðir í Reykjavík á næsta ári - þrátt fyrir húsnæðissáttmála sem borgin undirritaði í ársbyrjun sem kvað á um uppbyggingu 2.000 íbúða árlega. Þá er ónefnd sú gríðarlega húsnæðisþörf sem blasir við um landið allt. Lögðu sjálfstæðismenn til að sérstaklega yrðu könnuð tækifæri í Örfirisey, Úlfarsárdal, Kjalarnesi og Grafarvogi.

Aðgerðirnar gætu skilað borginni tugum milljarða sem nýta mætti til niðurgreiðslu skulda og innviðafjárfestinga.


Subbuskapur í fjármálum

Það er mikilvægt að tryggja sjálfbærni í rekstri borgarinnar - að skatttekjur borgarsjóðs nægi svo standa megi undir nauðsynlegri grunnþjónustu. Þess þarf að gæta að lögbundin þjónusta við borgarana sé ekki háð óhefðbundinni eignasölu.


Samfylking hefur farið fjálglega með almannafé um árabil. Í stað þess að ráðast á vandann er sópað yfir subbuskapinn með sölu á verðmætum eignum. Sjálfstæðisflokkur leggst ekki gegn slíkri eignasölu, en telur betur fara á því að söluandvirðið renni til niðurgreiðslu skulda eða innviðafjárfestinga.  Þegar engin áform standa til þess að viðurkenna rekstrarvandann verður slík eignasala lítið annað en framlag til áframhaldandi óstjórnar – Perla fyrir svín.




 

 

bottom of page