Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 dregur fram dökka mynd af rekstri borgarinnar. Rekstrarhallinn nam 15,6 milljörðum, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Því er ljóst að borgarstjóri fór 13 milljarða umfram áætlanir í rekstri liðins árs. Er nema von manni svelgist á morgunkaffinu?
Borgarstjóri notar fatlað fólk sem skálkaskól
Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða og ljóst að helstu frávikin má finna í sívaxandi rekstrarkostnaði. Borgarstjóri dregur hins vegar fram aðrar skýringar, segir borgina fara vel með fé, en framúrkeyrsluna skýrast af þjónustu við fatlað fólk. Þær fullyrðingar standast enga skoðun, en þegar betur er að gáð fór málaflokkur fatlaðs fólks 664 milljónir umfram fjárheimildir á árinu 2022, og nemur því einungis 5% af framúrkeyrslu síðasta árs.
Það er vægast sagt ósmekklegt hvernig borgarstjóri notar fatlað fólk sem skálkaskjól þegar verjast þarf sjálfsagðri umræðu um óábyrgan rekstur borgarinnar. Reksturinn er vandamálið, ekki lögbundin þjónusta við fatlað fólk.
Reykjavík stendur verr
Róðurinn hefur sannarlega verið þungur í rekstri sveitarfélaga að undanförnu. Reykjavík sker sig þó rækilega úr, líkt og fjölmargir mælikvarðar gefa til kynna.
Samband íslenskra sveitarfélaga vann nýverið athugun á ársreikningum nokkurra sveitarfélaga sem hýsa næstum þrjá af hverjum fjórum íbúum landsins, og gefur niðurstaðan vísbendingu um fjárhagsstöðu liðins árs. Í Reykjavíkurborg er íbúafjöldi um helmingur þessara sveitarfélaga og hefur þróun í borginni því afgerandi áhrif á niðurstöður í heild.
Séu niðurstöður dregnar saman fyrir Reykjavíkurborg annars vegar og önnur sveitarfélög hins vegar birtist áhugaverð mynd. Fyrir það fyrsta mætti nefna að rekstrarhalli sveitarfélaga í landinu, sem hlutfall af tekjum, var að meðaltali 2% á liðnu ári, en heil 10% í Reykjavík. Þá hækkuðu rekstrargjöld sveitarfélaga almennt um 10% á liðnu ári, en hækkuðu um 14,5% í Reykjavík. Skuldir sem hlutfall af tekjum hafa haldist nær óbreyttar meðal sveitarfélaga, en hækkuðu úr 76% í 91% hjá borginni árið 2022.
Tekjutuskan undin til fulls
Árið 2022 jukust skuldir borgarsjóðs um 30 milljarða milli ára en skuldir samstæðunnar um nær 40 milljarða. Hlutfall launakostnaðar af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum nam 89%, og hefur starfsmönnum A-hluta fjölgað um 25% á fimm ára tímabili, langt umfram lýðfræðilega þróun. Báknið heldur áfram að blása út.
Ef borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar er skoðuð sjálfstætt vekur sérstaka athygli hvernig skattbyrði og skuldir hafa aukist verulega. Frá árinu 2014 hafa skuldir á hvern borgarbúa aukist um 76,4% að raunvirði, og skattbyrði á hvern borgarbúa aukist um nær 20% að raunvirði. Borgarbúar reynast með þyngstu skattbyrði allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að þjónusta og lífsgæði mælist ítrekað verst í höfuðborginni. Hér fer ekki saman hljóð og mynd
Tekjutuskan er undin til fulls, skuldir aukast á ógnarhraða, arðgreiðslur úr fyrirtækjum í eigu borgarinnar hækka í sífellu, en samt skilar borgin fordæmalausum rekstrarhalla. Vandi borgarinnar er nefnilega ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi.
Ábyrg og heiðarleg viðbrögð
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir ábyrgum og heiðarlegum viðbrögðum við rekstrarvandanum. Ráðast þarf í hagræðingar, minnka yfirbyggingu, ráðast í eignasölu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Einungis þannig náum við áþreifanlegum árangri.
Hildur Björnsdóttir
コメント