top of page

Sundabraut án tafar!

Nú er liðin nærri hálf öld frá því fyrstu hugmyndir um Sundabraut litu dagsins ljós. Þær voru fyrst settar fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur en síðar staðfestar í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1985-2005. Árin og áratugina á eftir þokaðist hins vegar lítið í málinu.


Á haustdögum samþykkti borgarráð hins vegar loks verklýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Sundabrautar. Í kjölfarið boðuðu Vegagerðin og borgin kynningarfundi um matsáætlun vegna umhverfisáhrifa Sundabrautar og fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar. Nú virðist rofa til.

 

Pólitískt vandræðamál                        

Þegar nær 50 ára saga hugmynda um Sundabraut er skoðuð vekur eitt sérstaka eftirtekt. Hingað til hafa nær öll þau skref sem stigin hafa verið vegna Sundabrautar - og einhverja þýðingu hafa haft fyrir framganginn –verið stigin af ríkinu. Innlegg borgarinnar hefur almennt verið þróttlítið og fyrst og fremst til þess fallið að fækka valkostum og tefja.

 

Það er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Til að mynda mætti visa í könnun Maskínu sem birt var í febrúar árið 2022, þar sem fram kom yfirgnæfandi stuðningur við framkvæmd Sundabrautar. Aðeins 6,2% svarenda reyndust andvígir framkvæmdinni – og kom jafnframt í ljós að meðal kjósenda allra flokka reyndust margfalt fleiri fylgjandi Sundabraut en reyndist andvígir henni. Hvernig stendur þá á því að borgin hefur um árabil tafið fyrir svo sjálfsagðri framkvæmd sem mikill lýðræðislegur vilji reynist fyrir?

 

Svarið felst vissulega í þeirri augljósu staðreynd að Sundabraut hefur reynst pólitískt vandræðamál fyrir núverandi og marga fyrrverandi meirihluta borgarstjórnar. Sem skýrir sennilega ítrekaðar óafturkræfar skipulagsákvarðanir borgarinnar sem komið hafi í veg fyrir ýmsa fýsilega og hagkvæma kosti í málinu.

 

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Ljóst er að Sundabraut yrði þjóðhagslega arðbær samgönguframkvæmd. Þegar hefur verið greindur félagshagfræðilegur ábati af framkvæmdinni en í þeirri greiningu kom fram að í heild gæti ábati notenda af framkvæmdinni numið 216 til 293 milljörðum króna, allt eftir þeirri útfærslu sem valin yrði, brú eða göng. Mesti ábatinn væri vegna styttri ferðatíma, en einnig vegna styttri vegalengda. Niðurstaða greiningarinnar leiddi jafnframt í ljós, að hvort sem Sundabraut yrði brú eða göng, þá myndi framkvæmdin alltaf fela í sér gríðarlegan samfélagslegan ávinning og yrði metin samfélagslega hagkvæm sem slík.

 

Sundabraut án tafar!

Við sjálfstæðismenn fögnum því að af stað sé farin vinna við skipulag Sundabrautar. Við teljum mikilvægt að ganga inní þá vinnu með opinn huga hvað varðar einstakar útfærslur. Ekki síst verður mikilvægt að vinnan eigi sér skilgreindan endapunkt, hún verði skilvirk og unnin af festu.

 

Alla kosti þarf að vega og meta – sannarlega út frá kostnaði, en ekki síst út frá þeim þáttum sem síður verða metnir til fjár – ágangi á græna náttúru og neikvæðum áhrifum á lífsgæði þeirra íbúa sem búa munu við brautina.

 

Það sem mestu skiptir þó, og við sjálfstæðismenn leggjum megin áherslu á, er að Sundabraut komist til framkvæmda án tafar!




 

 

 

bottom of page