top of page

Áramótapistill 2023/2024

Kæru félagar,

 

það hefur verið í nægu að snúast fyrir okkur sjálfstæðismenn í borgarstjórn á árinu sem er að líða. Við höfum sinnt aðhaldshlutverkinu af metnaði, lagt fram fjölda umbótatillagna og kappkostað að vera málsvarar breytinga. Það var raunar annar flokkur sem lofaði að vera breytingin en sá var fljótt afhjúpaður sem varðhundur kyrrstöðu.

 

Það virðist sama í hvaða horn er litið, fátt hefur breyst til batnaðar. Leikskólabiðlistar hafa lengst milli ára og meðalaldur barna við inngöngu farið hækkandi. Samgönguvandinn hefur vaxið og telja sérfræðingar Vegagerðarinnar ársumferð á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist um 4,5% milli ára. Lausn húsnæðisvandans er hvergi í sjónmáli en þrátt fyrir undirritun sáttmála um uppbyggingu 2.000 íbúða árlega í Reykjavík eru einungis áformaðar 800 nýjar íbúðir á næsta ári. Strax eru framkomnar vísbendingar um að ný þjónustuhandbók um vetrarþjónustu muni ekki skila þeim árangri sem að var stefnt. Skuldir borgarinnar halda áfram að hrannast upp og mun rekstur borgarinnar aðeins reynast sjálfbær á næsta ári takist meirihlutanum að selja Perluna.

 

Meirihlutinn fór ekki sparlega með loforðin – ekki frekar en reksturinn – en sýnir fádæma aðhald þegar kemur að efndum. Við vonum að minnið bregðist ekki kjósendum í næstu kosningum.

 

Áramótaheit um metnað

Þau mál sem rata á borð borgarstjórnar eru fjölmörg og fjölbreytt. Það mál sem helst vakti athygli í árslok var hins vegar niðurstaða PISA könnunar sem bar íslensku skólakerfi ekki fagurt vitni. Reyndist árangur íslenskra skólabarna undir OECD meðaltali og Norðurlandameðaltali í öllum mældum greinum. Hið sama mátti sjá ef niðurstöður fyrir Reykjavík voru skoðaðar sérstaklega. Jafnframt kom fram að lægra hlutfall drengja en stúlkna næði grunnhæfni í bæði lesskilningi og læsi á náttúruvísindi og að nemendur sem ættu foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu kæmu verr út úr könnuninni.

 

Það er ekki annað hægt en að líta niðurstöðuna alvarlegum augum. Skólakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins, við verjum til þess heilmiklu fé og treystum að það undirbúi börnin okkar undir virka þátttöku í samfélaginu. Við eigum að gera ríkar kröfur til þeirra kerfa sem við sköpum, stýrum og fjármögnum. Við eigum að nýta fyrirliggjandi gögn til að meta hvar skólarnir standa, hvaða umbóta reynist þörf og hvernig við getum tryggt framfarir.

 

Við eigum að vera óhrædd að sýna alvöru metnað! Smæð samfélagsins veitir oft einstakt tækifæri til að rata í fremstu röð. Við ættum að setja skólunum okkar það áramótaheit að ná meiri árangri – hvert einasta ár – þar til íslenskt skólakerfi hefur ratað í röð 10 fremstu innan OECD.

 

Að róa og sá í þágu borgarbúa

Höfuðborgina okkar skortir metnað á fjölmörgum sviðum. Með vinnusemi og auknum metnaði eru möguleikarnir nær takmarkalausir – við gætum komið skólakerfinu í fremstu röð og skapað eina lífvænlegustu borg heims með fjölbreyttum búsetukostum, greiðum samgöngum og úrvali atvinnutækifæra.

 

En ekkert kemur af sjálfu sér. Fyrir þessu öllu þarf að vinna. Hver er sinnar gæfusmiður - þeir fiska sem róa og hver uppsker sem hann sáir. Þetta vitum við sjálfstæðismenn – en því miður hefur höfuðborgin ekki beinlínis verið í höndum sérlegra gæfusmiða síðustu árin.

 

Við höldum áfram að standa vaktina í borginni. Þrautseigjan mun að endingu færa okkur tækifærið til að róa og sá í þágu borgarbúa – og knýja fram raunverulegar breytingar í Reykjavík.

 

Ferming og fjölgun í fjölskyldunni

Það var ekki tíðindasnautt í fjölskyldulífinu þetta árið. Hápunktinum var sannarlega náð á sumardögum, þegar okkur Jóni fæddist undursamleg dóttir sem fékk nafnið Hólmfríður Áslaug Jónsdóttir. Hún er nú sex mánaða og bræðir hvert hjarta sem hún hittir. Það er okkar mesta gæfa að eiga þessi stórkostlegu börn sem gera alla daga fjölbreytta og skemmtilega.

 

Það var jafnframt stór stund þegar frumburðurinn, Björn Helgi, fermdist í vor við hátíðlega athöfn í Neskirkju. Það er gjarnan sagt að við fermingu gangi börn í fullorðinna manna tölu. Kannski er eitthvað til í því, enda hefur drengurinn stækkað um allan helming og þroskast mikil ósköp frá fermingu. Systurnar Kristín og Katrín áttu ekki síður viðburðaríkt ár í skóla og fjölbreyttum tómstundum. Þær eru orðnar miklar skíðadrottningar og hafa fyrir löngu tekið framúr móður sinni sem þeim finnst best geymd í barnabrekkunum. Kannski það verði mitt áramótaheit að ná betri tökum á skíðunum?

 

Kæru vinir, ég þakka velvildina og stuðninginn á árinu sem er að líða, en styrkur og auður okkar sjálfstæðismanna er fyrst og síðast fólginn í því trausta og kraftmikla baklandi sem stendur vaktina með okkur. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs og óska ykkur öllum gleði og farsældar á komandi ári.

 

Hildur Björnsdóttir

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.





 

bottom of page