top of page

Daggæsla á vinnustað

Það er skortur á úrræðum fyrir fjölskyldufólk í Reykjavík. Leikskólapláss eru af skornum skammti, biðlistar á frístundaheimili langir og dagforeldrum fer árlega fækkandi. Fjölskyldur flytja til annarra sveitarfélaga þar sem þjónusta er trygg og lífsgæði mælast betri.


Atvinnurekendur verða ekki síður fyrir áhrifum af úrræðaleysinu. Mörgum reynist erfitt að endurheimta starfsfólk að loknu fæðingarorlofi. Foreldrar eru gjarnan lengur frá vinnu en vilji og efni standa til – vegna skorts á daggæslu í kjölfar barneigna. Ríkisstjórnin hefur tryggt lengra fæðingarorlof, nágrannasveitarfélögin bjóða yngri börnum leikskólavist – nú er komið að borginni að brúa bilið.


Vandann má nálgast með margvíslegum lausnum. Bilið mætti brúa með eflingu dagforeldrastéttar – og fjölgun leikskólarýma – en það mætti jafnframt brúa með nýjum leiðum sem þekkjast víða erlendis.


Ég vil kanna möguleikann á stuðningi borgar við stærri vinnustaði að opna daggæslu fyrir börn starfsmanna. Borgin sýndi þannig frumkvæði að samtali við fjölskyldur og atvinnulíf um nýjar lausnir á viðvarandi vanda. Aðgerðin myndi gagnast fjölskyldum jafnt sem atvinnurekendum. Foreldrar ættu auðveldara með að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna – og atvinnurekendur gætu endurheimt starfsfólk fyrr úr orlofi, standi vilji til þess.


Samhliða mætti hækka niðurgreiðslur til dagforeldra með börnum 12 mánaða og eldri, svo greitt sé sama gjald fyrir barn á leikskóla og barn hjá dagforeldri. Þannig mætti mæta þeim fjölskyldum sem ekki hafa fengið leikskólapláss fyrir börnin sín við 12 mánaða aldur og tryggja aukið valfrelsi foreldra um ólíka daggæslukosti.


Fjölskylduvandinn í Reykjavík hefur verið viðvarandi. Lengi hefur staðið á borgaryfirvöldum að finna raunverulegar lausnir. Fjölgum valkostum – eflum dagforeldrastéttina, fjölgum leikskólarýmum og leitum samstarfs við stærri vinnustaði um daggæslu fyrir börn starfsmanna. Tryggjum einfaldara líf fyrir fjölskyldur í Reykjavík.


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks




Comentarios


bottom of page