top of page

Stokkum spilin

Árið 1926 fækkaði framsýnn kapítalisti, Henry Ford, vikulegum vinnudögum í verksmiðjum sínum úr sex í fimm. Þar með innleiddi hann fjörtíu stunda vinnuviku sem var sá nákvæmi tímafjöldi sem Ford taldi nauðsynlegan svo framleiða mætti bifreiðar í samræmi við eftirspurn. Fjörtíu stunda vinnuvikan var svo lögleidd í Bandaríkjunum árið 1940 en hérlendis árið 1971.


Síðan eru liðnir fjölmargir áratugir. Heimurinn hefur tekið ótrúlegum breytingum. Vélvæðing, tölvuvæðing, snjallvæðing og netvæðing hafa gjörbreytt umheiminum – en áfram miðar vinnuumhverfi samtímans við framleiðsluferli Ford bifreiða árið 1926.


Það er heilbrigt að velta því upp hvers vegna vinnudagur samtímans er enn átta stundir. Hvers vegna netvæðing hefur ekki leitt til aukinnar fjarvinnu? Hvers vegna vinnu má ekki stundum mæla í afköstum fremur en klukkustundum? Hvers vegna landsmenn hefji flestir sinn vinnudag um sama leyti?


Á tímum samkomubanns dró verulega úr umferðartöfum í Reykjavík. Vinnustaðir buðu sveigjanlegri vinnutíma og möguleikum til fjarvinnu fjölgaði. Mörgum urðu ljós þau gífurlegu tækifæri sem felast í auknum sveigjanleika, ekki síst svo draga megi úr umferðarálagi. Samtök iðnaðarins áætluðu að 15% minni umferðartafir gætu skilað fólki og fyrirtækjum 80 milljarða króna ábata á örfáum árum. Þá eru ótalin þau auknu lífsgæði sem felast í greiðum samgöngum.


Svo unnt verði að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins þarf að minnka mengandi umferð um 5% árlega – það samsvarar 6,7 km akstri á hvern íbúa vikulega. Þessu markmiði mætti hæglega ná með þeirri einföldu aðgerð að tryggja starfsfólki einn fjarvinnudag vikulega. Ávinningurinn er margvíslegur.


Nú er lag að hefja viðræður við stærstu vinnustaði borgarinnar um sveigjanlegri vinnutíma. Síðustu mánuðir hafa sýnt hve sveigjanleikinn getur aukið lífsgæði og létt á umferðarálagi. Aðgerðin er einföld og kostar skattgreiðendur ekkert. Nú er kominn tími til að endurskoða þau kerfi sem við höfum skapað samfélaginu - og kanna hvort þau séu raunverulega að þjóna okkur. Nú er kominn tími til að stokka spilin!


Hildur Björnsdóttir

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks


Comments


bottom of page